Í vikunni hélt hópur tíu aðildarríkja Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) ráðherrafund í Genf um stöðu mála í yfirstandandi samningaviðræðum stofnunarinnar hvað varðar landbúnaðarmál. Þessi tíu ríki, og þ.m.t. Ísland, hafa átt samstarf undanfarin misseri í viðræðunum og lagt áherslu á að landbúnaður býr við ólík framleiðsluskilyrði sem gerir það að verkum að
tryggja verði viðunandi sveigjanleika í reglum hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis svo landbúnaður þeirra geti farsællega aðlagast þeim breytingum í frjálsræðisátt sem um kann að semjast í
yfirstandandi samningalotu.

Guðmundur B. Helgason, ráðuneytisstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, fór fyrir sendinefnd Íslands á fundinum. Hann sagði í samtali við Stiklur, vefrit viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins: "á næstu dögum og vikum ræðst hvort rammasamkomulag næst, eða a.m.k. að leiðin verði vörðuð fyrir framhald viðræðnanna. Hætta er á að Doha-lotan renni út í sandinn ef þetta mistekst. Ráðherrafundurinn gaf G10 hópnum mjög gott tækifæri að leggja mat á stöðu viðræðnanna og árétta þau sjónarmið sem hópurinn hefur haft um efni þeirra. Við munum halda áfram að leggja okkar af mörkum til að samkomulag náist. Umbótaferlið verður að tryggja landbúnaðinum og þeim sem hann stunda nauðsynlegt ráðrúm til að aðlagast þeim breytingum sem að um semst, auk þess sem lögð verður áhersla á að reglur hins fjölþjóðlega viðskiptakerfis taki tillit til þátta sem ekki eru viðskiptalegs eðlis."

Umbóta þörf í landbúnaði

Tíu ríkja hópurinn stefnir að því að halda áfram
umbótum í landbúnaði og skapa réttlátar reglur í alþjóðaviðskiptum með landbúnaðarvörur. Þá leggur hópurinn áherslu á að við umbæturnar verði reynt að koma í veg fyrir möguleg neikvæð áhrif þeirra. Auk þess verði í umbótaferlinu tekið tillit til ýmissa þátta sem ekki eru viðskiptalegs eðlis, eins og Guðmundur B. Helgason minntist á, s.s. fæðuöryggis, matvælaöryggis, neytendamála, byggðasjónarmiða og umhverfismála.
Stefnt hefur verið að því í viðræðum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar að ná
rammasamkomulagi um landbúnaðarmál nú í júlímánuði, sem lagt yrði til grundvallar frekari viðræðum á komandi misserum. Því þótti hópnum tímabært að boða til ráðherrafundar nú til að árétta áherslur sínar í viðræðunum. Ráðherrarnir héldu jafnframt stuttan fund með Tim
Groser, formanni samninganefndar Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar um landbúnað, og skiptust þar á skoðunum um stöðu viðræðnanna
almennt.

Fréttatilkynningu G10-ríkjanna af fundinum má nálgast á vefsetri Stiklna: www.stiklur.is