Viðræður milli Orkuveitu Reykjavíkur og Geysis Green Energy sem hófust eftir að borgaryfirvöld og síðar OR féllu frá samruna Reykjavík Energy Invest og GGE hafa "gengið frekar rólega" frá því fyrir jól, að sögn Ásgeirs Margeirssonar, forstjóra GGE.

Þegar hann er spurður um hvað þær viðræður hafi snúist svarar hann: "Þegar sameina átti REI og GGE átti að leggja inn í það sameinaða félag Enex, Enex í Kína, áttatíu prósent í Iceland America Energy og eignarhluti Geysis og Orkuveitunnar í Hitaveitu Suðurnesja, sem hefðu verið á bilinu 49 til 63% eftir því hvað yrði um hlut Hafnarfjarðar." Auk þessa átti allur rekstur REI og Geysis að ganga inn í hið sameinaða félag REI og GGE. "Viðræðurnar hafa snúist um það hvað eigi að gera við þessar eignir."

Bryndís Hlöðversdóttir, fyrrverandi stjórnarformaður OR, leiddi viðræðurnar fyrir hönd Orkuveitunnar þar til skipt var um stjórn í OR í janúar síðastliðnum. Ásgeir segir eðlilegt að ný stjórn OR fái tíma til að komast inn í málið en býst við að viðræðurnar verði teknar upp að nýju.

Nánar er fjallað um þetta í Viðskiptablaðinu í dag.