Innan skamms hefjast viðræður á milli fjármálaráðuneytis og Landssamtök lífeyrissjóða, vegna óskar þess um að fram fari heildarendurskoðun á lögum um lífeyrissjóði. Meðal annars vilja lífeyrissjóðirnir að ákvæði um fjárfestingar sjóðanna verði breytt í þá veru að stærri hluti eigna þeirra megi vera í hlutabréfum en nú er heimilt.

Böðvar Jónsson, aðstoðarmaður fjármálaráðherra, segir að undirbúningur viðræðna sé kominn vel á veg og muni formlegar viðræður hefjast innan skamms. „Við munum eiga við þá viðræður og fara yfir óskir þeirra og skoða málið í framhaldi af því,” segir Böðvar. „Engar ákvarðanir hafa verið teknar af hálfu ráðuneytisins um þessa beiðni og of snemmt er að segja til um afstöðu ráðuneytisins varðandi einstakar tillögur þeirra, en við viljum hins vegar skoða þær breyttu áherslur sem lífeyrissjóðirnir hafa óskað. Við sjáum hvað þeir leggja upp með, tökum vel á móti þeim og sjáum svo til um framhaldið.”