Fjárfestingahópur sá sem á bresku verslunarkeðjuna Somerfield hefur hafið formlegar viðræður við bresku verslunakeðjuna Co-op um sölu á Somerfield að því er kemur fram í Financial Times. Somerfield er fimmta stærsta verslunarkeðja Bretlands og áður hafði komið fram að eigendahópurinn vill fá sem svarar tveimur milljörðum punda fyrir fyrirtækið. Samvinnufélagið Co-op er eini aðilinn sem hefur sýnt áhuga á að kaupa en fyrsta tilboð þeirra var upp á 1,7 milljarða punda þannig að greinilegt er að talsvert ber á milli.

Hópur sá sem á Somerfild samanstendur af Apax Partners, Barclays Capital, Robert Tchenguiz og Kaupþing og átti Kaupþing 9% hlut í félaginu þegar mest var, í gegnum eignarhaldsfélag sitt, Kaupthing Principal Investments. Hlutur bankans mun vera minni nú eins og áður hefur komið fram í Viðskiptablaðinu. Hópurinn hefur gefið út að hann sé ekki tilbúinn að selja fyrir lægri upphæð en 1,9 milljarða punda. Financial Times hefur eftir heimildarmönnum að innan eigendahópsins ríki nú meiri bjartsýni en áður um að það takist að selja félagið á ásættanlegu verði en bandaríski bankinn Citigroup var fenginn til að selja Somerfield-keðjuna í liðnum mánuði. Er nú beðið þess að Co-op ljúki áreiðanleikakönnun sinni.

Í upphafi var félagið metið á 2 til 2,5 milljarða punda en félagið hefur verið til sölu frá því í júní á síðasta ári. Eigendahópurinn hefur barist gegn því að selja félagið í bútum en margir höfðu augastað á einhverjum af þeim ríflega 900 verslunum sem félagið á en félagið er með með um 3,7% markaðshlutdeild á breska matvörumarkaðnum. Félagið greindi frá því í síðasta mánuði að það hefði selt sjö stórversalanir til Tesco fyrir 100 milljónir punda.

Félagið var afskráð í desember 2005 og er stýrt af Paul Mason, fyrrverandi forstjóra Asda. Félagið hagnaðist um 227 milljónir punda á síðasta ári en þá nam velta þess um 4,4, milljörðum punda. Þess má geta að bresk samkeppnisyfirvöld hafa rannsakað stórmarkaðskeðjur þar í landi undanfarna mánuði og er að vænta niðurstöðu í vor, sem getur haft áhrif á söluferlið. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins hafa um 10-15 aðilar óskað upplýsinga um félagið og hafa allmargir þeirra viðvarandi áhuga.