Í fréttatilkyningu frá Landsvirkjun segir að fyrirtækið hafi í haust átt í könnunarviðræður við fjölmörg fyrirtæki sem vilja byggja upp starfsemi á Suður- og Vesturlandi og hafa áhuga á raforkukaupum úr virkjunum þeim sem fyrirhugaðar eru í neðri hluta Þjórsár.  Ljóst er að eftirspurnin eftir orku er langt umfram framboð, þannig að ekki verður hægt að mæta óskum allra.

Raforkukaupendurnir sem rætt hefur verið við stunda fjölbreytta starfsemi, svo sem álvinnslu, kísilvinnslu, hreinsun kísils fyrir sólarrafala og rekstur netþjónabúa.

Stjórn Landsvirkjunar telur mikilsvert að fyrirtækið fái sem hæst verð fyrir raforkuna, dreifi áhættu og auki fjölbreytni viðskiptavina sinna.  Landsvirkjun hefur því ákveðið að hefja viðræður um raforkusölu við fyrirtæki sem hyggjast byggja upp netþjónabú á Íslandi.  Einnig eru í undirbúningi viðræður við fyrirtæki á sviði kísilhreinsunar fyrir sólarrafala.  Ekki er enn hægt að greina frá því hver þessi fyrirtæki eru.  Líkleg staðsetning þessarar starfsemi verður á Suðurlandi og Reykjanesi.  Áhersla Landsvirkjunar á netþjónabú og sólarkísil byggist á því að vænta má hærra raforkuverðs í þeim viðskiptum en við aðra stórkaupendur.  Landsvirkjun mun þess vegna ekki ganga til samningaviðræðna að sinni við fyrirtæki sem hyggja á bygginu nýrra álvera á Suður- eða Vesturlandi.

Rafmagni úr þeim virkjunum sem eru í undirbúningi í Þjórsá telur Landsvirkjun að verði best ráðstafað í þágu starfsemi af þeim toga sem að ofan er lýst ásamt hugsanlega aukinni sölu til álvera sem þegar eru starfandi í landinu.  Undirbúningi virkjana í Þjórsá miðar áfram þannig að framkvæmdir gætu hafist á seinni hluta næsta árs ef allt gengur eftir.