Hjá bandaríska bílaframleiðandanum General Motors hefur verið sett saman stjórnendateymi sem falið hefur verið að kanna kosti þess að hefja samstarf við Nissan og Renault. Þessar aðgerðir gefa sterklega til kynna að stjórnendur GM séu alvarlega að hugleiða að hefja slíkt samstarf sem myndi hafa töluverð áhrif á bílaiðnaðinn.

Fritz Henderson, fjármálastjóri GM, leiðir hópinn sem mun kanna núverandi samstarf Renault og Nissan auk þess að leggja mat kosti þess fyrir GM að taka þátt. Með samvinnu gætu framleiðendurnir þrír ráðið yfir nærri fjórðungi bílasölu í heiminum auk þess sem fyrirtækin hefðu yfir gífurlegu fjármagni að ráða við rannsóknir og þróun.

Viðræður milli Rick Wagoner, stjórnarformanns og framkvæmdastjóra GM og Carlos Ghosn, stjórnarformanns Nissan og Renault, eru þegar hafnar. Þá er reiknað með að stjórnendurnir muni hittast í Detroit síðar í mánuðinum. Ekki er ljóst út á hvað samningaviðræðurnar ganga í smáatriðum, enda eru viðræðurnar enn á frumstigi.

Í vikunni sagði François Loos, iðnaðarráðherra Frakka að forsvarsmenn Renault þyrftu að fara gætilega í öllum samningaviðræðum en fyrirtækið sem var einkavætt 1996 en er enn í 15% ríkiseigu. Talsmaður franska fjármálaráðuneytisins sagðist hvorki vera fylgjandi né mótfallinn hugmyndinni um að Renault hefji samstarf við GM. Engu að síður benti hann á að samning sem "þynnti" eignarhald ríkisstjórnarinnar yrði að skoða vandlega.