Sterkur orðrómur hefur verið um það í Svíþjóð að undanförnu að til standi að fara í frumútboð (IPO) og að því loknu skrá netfyrirtækið Projectplace sem á og rekur verkefnastjórnunarkerfið Projectplace.com og kemur þessi orðrómur fram í nýjasta hefti Affarsvarlden viðskiptatímaritinu.

Þetta er áhugavert fyrir sænsk-íslenska áhættufjárfestingasjóðinn Arctic Ventures en hann á tæplega 10% hlut í Projectplace. Annar stór hluthafi í Projectplace er fyrirtækið Investor AB sem er í eigu sænsku Wallenberg-fjölskyldunnar. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er verðmæti félagsins áætlað um 300 milljónir sænskra króna eða um þrír milljarðar króna.

Ragnar Þórisson, framkvæmdastjóri Arctic Ventures, staðfesti við Viðskiptablaðið að viðræður séu í gangi við norræna fjárfestingarbanka um frumútboð á Projectplace. Engin niðurstaða lægi hins vegar fyrir á þessari stundu og vildi hann ekki tjá sig meira um málið á þessari stundu. Arctic Ventures er nú með yfirtökutilboð á stærstu eign sína Tradedouber frá AOL-TimeWarner fjölmiðlasamsteypunni og er þess vænst að niðurstaða þar fáist innan skamms.

Projectplace var stofnað 1998 af Svíunum Mattias Hällström, Magnus Ingvarsson og Peter Engstedt. Í september sama ár hóf fyrirtækið að selja þjónustu sína á netinu og greiða notendur fyrir notkun samkvæmt áskriftarkerfi um netið.  Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Projectplace eru í dag um 260.000 notendur að þjónustu félagsins.