Viðræður eru langt komnar á milli Austurhafnar-TR, sem er samstarfsvettvangur ríkis og Reykjavíkurborgar, um yfirtöku á Eignarhaldsfélaginu Portusi hf. Snýst málið um á annan tug milljarða króna vegna byggingar tónlistarhúss og vegna lóða á Kvosarsvæðinu.

Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar-TR, segist vonast til að botn fáist í málið á næstu dögum. Málið er flókið og snertir m.a. ríkið, Reykjavíkurborg, Gamla Landsbankann, Nýja Landsbankann auk ÍAV.

Stefán staðfesti í samtali við Viðskiptablaðið að Portus skuldaði ÍAV um 800 milljónir króna og ljóst væri að Portus gæti ekki greitt þá upphæð. Þar sé um að ræða framvindureikninga vegna framkvæmda á svæðinu og erlenda þjónustu.

“Þegar við erum að tíunda hvað kosti að klára verkið þá er þessi skuld inni í þeim kostnaði.”

Fram kom á vef Viðskiptablaðsins fyrr í dag að kostnaður við að ljúka byggingu hússins gæti numið um 10 milljörðum króna. Stefán segir að til viðbótar byggingakostnaði komi kostnaður vegna lóðaréttinda sem Portus ráði yfir vegna fyrirhugaðrar hótelbyggingar, byggingar nýrra höfuðstöðva Landsbankans og viðskiptamiðstöðvar í Kvosinni.

“Niðurstaðan varð því sú að við værum að yfirtaka mannvirkið sem slíkt og öll þessi lóðaréttindi. Fyrir það kemur þá væntanlega greiðsla sem gamli bankinn fær upp í sínar skuldbindingar,” segir Stefán. Hann sagðist þó ekki geta upplýst hver heildarfjárhæðin vegna þessa kæmi til með að verða. Lóðakostnaðurinn væri þó minni en kostnaðurinn við Tónlistarhúsið.   Varðandi kostnað vegna gatnagerðar á svæðinu sagði hann að nú væri rætt um að láta það mál bíða. Geirgata yrði þá óbreytt um sinn og hugsanlega áfram á yfirborðinu með göngugötu undir hana í stokk eins og upphaflega var gert ráð fyrir.