Óvissa ríkir um það hvort tekst að semja við Rússa um erlent lán samkvæmt aðgerðapakka Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) en viðræður við Pólverja eru hins vegar komnar vel áleiðis á sögn Jóns Sigurðssonar, fyrrverandi seðlabankastjóra sem fer fyrir íslensku sendinefndinni.

Pólska sendinefndin er væntanleg hingað til lands á morgun til viðræðna. Sem kunnugt er lofuðu Pólverjar og Rússar að leggja Íslendingum til lán ásamt Norðurlöndunum til að styðja við lán og aðgerðarpakka AGS og byggja þannig upp gjaldeyrisvarasjóð Íslendinga.  Viðræðurnar við Rússa og Pólverja fara fram sitt í hvoru lagi en Pólverjar hafa verið með áheyrnarfulltrúa á upplýsingafundum varðandi Norðurlandalánin sem nú eru frágengin og undir var ritað 1. júlí. Þaðan kemur bróðurparturinn af þeim tvíhliða lánum sem koma áttu með AGS eða 2.500 milljónir Bandaríkjadala eða jafnvirði þeirra í evrum.

Efnahagur landanna þróast til hins verra

Pólverjar gáfu fyrirheit um 200 milljónir Bandaríkjadala í nóvember síðastliðnum en um leið gáfu Rússar fyrirheit um allt að 500 milljónir Bandaríkjadala. ,,Það er öllum ljóst að efnahags og fjárhagsaðstæður þessara landa hafa hafa breyst til hins verra frá því að loforðin voru gefin. Hins vegar hafa Pólverjar sýnt fullan vilja til þess að standa við sín fyrirheit og um það ætlum við að semja við þá hér næstu daga,“ sagði Jón.

- Er síður að sjá að Rússar geti staðið við sín fyrirheit?

,,Geti eða vilji, ég veit ekki hvort er. Auðvitað vitum við að þeirra aðstæður hafa orðið lakari. Meðal annars vegna lækkunar á olíuverði svo maður nefni einn augljósan hlut og ýmis efnhagsleg vandamál sem hafa fylgt fjármálakreppunni í heiminum hjá þeim eins og öðrum þjóðum. Það gengur hægar en við áttum einn ágætan fund með þeim í júní í Moskvu. Svo má segja að það sé einskonar biðstaða í málinu en það hefur ekki verið sagt nei af þeirra hálfu og við munum halda áfram samningaumleitunum við þá,“ sagði Jón. Það kom fram hjá honum að sendinefndir landanna eiga í stöðugum bréfaskrifum sín á milli. Að sögn Jóns hefur hann aðallega rætt við aðstoðarfjármálaráðherra Rússlands, Dimitri Pankin. Samningsumboðið liggur hjá honum. Í Póllandi er það pólski fjármálaráðherrann sem hefur veitt samninganefndinni, sem er að koma hingað, umboð til þess að semja við Íslendinga. Að sögn Jóns hefur alltaf verið sama fólkið í þessum viðræðum.

Niðurstaða á lán frá Pólverjum fyrir lok ágúst

Jón sagðist bjartsýn á að það kæmist niðurstaða í viðræðunum við Pólverja fyrir lok ágústmánaða. Óhjákvæmilegt er að niðurstaða í  viðræðum við Rússa kemur síðar. ,,Það mikilvæga í málinu er að ljúka slíkum samningum fremur en að fá greiðsluna út í hönd til þess að skapa traust og tiltrú á efnahagsaðgerðirnar en þessu lánsfé er ætlað að vera varasjóður fyrir Ísland. Þetta er ekki eyðslufé sem er verið að útvega heldur fé sem ætlað er að byggja upp skjólvegg fyrir – vonandi - stöðugara gengi og lægri vexti.