Aðildarviðræður Íslands og Evrópusambandsins verða að sögn Aðalsteins Leifssonar, lektors við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, einstakar í sögu ESB. hann segir það vera vegna þátttöku Íslands í innri markaði ESB í gegnum samninginn um Evrópska efnhagssvæðið undanfarin 15 ár. ,,Ísland er þegar virkur þátttakandi í stærstum hluta evrópusamstarfsins og Alþingi hefur innleitt í íslenskan rétt stærstan hluta löggjafar ESB - allt sem snýr að frjálsum vöruviðskiptum, fjármagnsflutningum, þjónustuviðskiptum og frjálsri för fólks."

Umsókn Íslands fer fyrir fund í utanríkisráðherra í ráðherraráði ESB 27. júlí nk. Aðalsteinn telur að ráðherraráðið mun taka vel í umsóknina og senda hana til umsagnar framkvæmdastjórnar ESB. ,,Framkvæmdastjórn ESB mun, í samstarfi við íslensk stjórnvöld, fara yfir og meta þá vinnu sem er framundan við aðildarviðræðurnar. Framkvæmdastjórnin mun í framhaldi af því skila skýrslu til leiðtogaráðs ESB (forsætisráðherrar og eftir atvikum forsetar aðildarríkja ESB) og óska eftir formlegu samningsumboði. Leiðtogaráðið mun taka skýrsluna fyrir á desemberfundi sínum og veita framkvæmdastjórninni formlegt samningsumboð," sagði Aðalsteinn

Aðildarviðræður í raun þegar hafnar

,,Það er mjög mikilvægt að stjórnvöld og hagsmunaðilar geri sér grein fyrir því að jafnvel þó að formlegar aðildarviðræður hefjist ekki fyrr en í janúar á næsta ári þá eru aðildarviðræðurnar nú þegar hafnar. Allir sem að viðræðunum koma þurfa að vinna myrkrana á milli frá deginum í dag og þar til samningurinn er í höfn. Núna á næstu mánuðum er lykilatriði að hafa áhrif á þá tillögu að samningsumboði sem framkvæmdastjórn ESB leggur fyrir fund leiðtogaráðsins.

Einnig er gríðarlega mikilvægt að hefja þegar viðræður við stjórnvöld í öllum 27 aðildarríkjum ESB með það að markmiði að greina hagsmuni og vinna sjónarmiðum Íslands skilning. Þó að Ísland muni semja við framkvæmdastjórn ESB um sjávarútveg, landbúnað og aðra málaflokka sem standa út af í EES-samstarfinu, þá má aldrei gleyma því að framkvæmdastjórnin semur í umboði aðildarríkjanna og með virkri þátttöku aðildarríkjanna."

Aðalsteinn sagði að Íslendingar þurfi sérstaklega að rækta tengsl við núverandi forsæti Evrópusambandsins og þau ríki sem næst fara með forsætið, en jafnframt að hafa tíð og ítarleg samskipti um viðræðurnar við öll hin aðildarríkin og við stóru evrópsk hagsmunasamtök, svo sem aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtök sveitarfélaga, neytenda o.s.frv.

Á sama tíma þarf að setja upp skilvirkt samráð við alla hagsmunaðila á Íslandi þannig að þeir hafi innsýn inn í viðræðurnar og geti stutt samningamenn Íslands með upplýsingum um hagsmuni og áhrif mismunandi leiða sem kunna að vera færar í viðræðunum. Einnig þarf að efla upplýsingastarf um allt land og gæta þess að væntingar um framgang viðræðnanna og hugsanlega niðurstöðu byggi á þekkingu og raunsæi," sagði Aðalsteinn.