Bandaríska flugfélagið United Airlines dregur afkomuspá sína fyrir árið 2020 til baka vegna áhrifa kórónavírusins Covid-19, sem alla jafna er kenndur við upphafsborgina Wuhan í Kína. Segir félagið óvissuna um hver áhrif útbreiðsla vírusins á eftirspurn eftir flugi verði of mikla. Þar með var félagið það fyrsta til að leggja afkomuspá sína á hilluna vegna vírussins.

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um hafði aukin útbreiðsla vírussins utan Kína haft áhrif á hlutabréfamarkaði bæði hér heima þar sem ekki hafa verið meiri lækkanir í eitt og hálft ár og víðs vegar um heiminn.

Félagið ætlar þó að gera ráð fyrir því að áætlanirnar muni halda fyrir fyrsta ársfjórðunginn, meðal annars vegna lægri eldsneytiskostnaðar en samkvæmt spánni býst félagið við auknum tekjum á árinu.

Jafnframt býst félagið við að ef vírusinn hefur runnið sitt skeið á enda um miðjan maí og venjuleg ferðatíðni yfir Kyrrahafið verði komin af stað á ný búist það við að markmið sitt fyrir árið náist. Eftirspurn eftir ferðum til Kína á næstunni hefur nánast algerlega gufað upp og eftirspurn á Kyrrahafssvæðinu dregist saman um 75%.

Bandarísk flugfélög hafa tímabundið hætt flugi til Kína, en af félögum þar segir greinandi á whbl.com að United hafi víðtækasta áfanganetið og sé því viðkvæmast fyrir áhrifum vírussins. Í gær lækkaði gengi bréfa félagsins um 3,3%, en á eftirmarkaði síðan hefur lækkunin verið 0,76%.