Stjórn VÍS hefur tekið ákvörðun um framkvæmd áætlunar um kaup á eigin bréfum í þeim tilgangi að lækka útgefið hlutafé félagsins. Áætlunin byggir á ákvörðun sem var tekin á síðasta aðalfundi í mars að heimila stjórn að kaupa á næstu fimm árum allt að 10% af hlutafé félagsins.

Hámarksfjöldi hluta sem áætlunin kveður á um að verði keyptir eru að nafnverði kr. 55.000.000 hlutir, en það jafngildir um 2,2% af útgefnu hlutafé félagsins. Fjárhæð endurkaupanna verður þó aldrei hærri en 500 milljónir króna.  Heimildin gildir fram að aðalfundi félagsins á næsta ári.

Í tilkynningu frá VÍS til Kauphallarinnar segir að endurkaupaáætlunin verði framkvæmd af óháðum utanaðkomandi aðila, verðbréfafyrirtæki eða lánastofnun, sem tekur þar með allar viðskiptaákvarðanir sem varða kaup á hlutum og tímasetningu kaupanna óháð félaginu.

Kaupin verða framkvæmd í áföngum, þó þannig að kaup hvers dags verður að hámarki 2.250.810 hlutir. Það er 25% af meðaltali daglegra viðskipta með hlutabréf félagsins í Kauphöll Íslands í apríl síðastliðnum.