Vátryggingafélag Íslands hf., VÍS, hefur eignast tæplega 10% hlut í norsku tryggingafélagi, Protector Forsikring ASA. Þetta gerist í tengslum við hlutafjáraukningu sem fjallað verður um á aukaársfundi norska félagsins í október nk. Eigendur Protector Forsikring verða eftir breytinguna 60-70 talsins og VÍS verður einn stærsti hluthafinn í félaginu,

Þátttaka VÍS í tryggingaþjónustu í Noregi er í samræmi við yfirlýsta stefnu félagsins um að stækka og eflast á öllum sviðum starfsemi sinnar. Einn af mörgum vaxtarbroddum VÍS hlýtur að vera fólginn í því að teygja anga starfseminnar út fyrir landsteinana. Félaginu bauðst áhugavert tækifæri þar að lútandi í Noregi.

Protector Forsikring er ungt félag, stofnað haustið 2003 með höfuðstöðvar í Osló. Starfsemi þess er einkum á höfuðborgarsvæðinu en markaðssvæðið er í raun allur Noregur.

Helstu stjórnendur félagsins hafa mikla reynslu af rekstri tryggingafélaga. Forstjóri félagsins er Jostein Sørvall en hann var áður framkvæmdastjóri hjá Storebrand, Norske Liv og Swiss Re í Noregi.

Protector Forsikring er alhliða tryggingafélag en hefur m.a. sterka stöðu í svokölluðum eigendaskiptatryggingum með því að bjóða þeim er selja hús og íbúðir að tryggja sig fyrir göllum eða öðru sem upp kann að koma gagnvart kaupendum fasteignanna.