Vátryggingafélag Íslands hf., VÍS, keypti í gær 54% hlutafjár í breska tryggingafélaginu IGI Group Ltd., Intercorporated General Insurance, og er þar með fyrst íslenskra tryggingafélaga til að eignast meirihluta í erlendu tryggingafélagi. VÍS tryggði sér jafnframt forkaupsrétt að enn stærri hlut í IGI þannig að félagið eignast 75% hlutafjár í IGI verði sá kaupréttur virkur.

Samningur VÍS og IGI var undirritaður í Lundúnum í dag og síðan kynntur á starfsmannafundum félaganna á Íslandi og í Bretlandi. Kaupverðið er trúnaðarmál. IGI verður dótturfélag VÍS og hluti af samstæðu félagsins. Kaupin á IGI eiga sér nokkurn aðdraganda og samningaviðræður hafa staðið frá því í júlí síðastliðnum. Áreiðanleikakönnun á IGI er lokið en breska fjármálaeftirlitið hefur kaupsamninginn nú til meðferðar og beðið er niðurstöðu þess til að VÍS geti tekið við rekstri IGI. Niðurstöðu er að vænta innan 90 daga.

Eigendur og stjórnendur VÍS hafa sett sér það markmið að gera félagið alþjóðlegt forystufyrirtæki á Norðurlöndum og í Bretlandi á tilteknum sviðum trygginga-, fjármála- og öryggisþjónustu. Kaupin á meirihluta IGI nú, og kaup VÍS á hlut í norska tryggingafélaginu Protector Forsikring í september síðastliðnum - þar sem VÍS er stærsti einstaki hluthafinn - eru í samræmi við þetta markmið. Allar forsendur eru til þess að stækka IGI og styrkja það til sóknar í Bretlandi, á markaði þar sem búa um 60 milljónir manna og tryggingaiðgjöld nema alls jafnvirði um 4.500 milljarða íslenskra króna.

IGI Group Ltd. er alhliða tryggingafélag sem sérhæfir sig í eignatryggingum fyrir einstaklinga og málskostnaðartryggingum. Starfsemin er fjölbreytt og stjórnendur og starfsmenn eru með mikla reynslu. Félagið á og rekur eigið sölufyrirtæki sem er ótvíræður kostur. Það er með tvær starfsstöðvar, annars vegar í City, fjármálahverfi Lundúna, og hins vegar í Nottingham. Starfsmenn IGI eru á sjöunda tug og áætluð velta félagsins er rúmlega 22 milljónir sterlingspunda eða um 2,5 milljarðar króna.

IGI Group Ltd. var upphaflega stofnað í Suður-Afríku 1954 og setti síðar á laggir útibú í Bretlandi. Árið 1995 keyptu þeir Clive Saron og John Levin félagið, reyndir menn í tryggingastarfsemi og fjárfestingum. Eftir kaup VÍS munu þeir eiga tæplega 45% hlut í IGI og gert er ráð fyrir að þeir verði meðeigendur í félaginu áfram þrátt fyrir að VÍS virkji kauprétt sinn. Báðir hafa síðan þá setið í stjórn IGI, annar sem stjórnarformaður, og gert er ráð fyrir að þeir verði áfram í stjórn félagsins segir ítilkynningu VÍS.