Það sem af er degi hefur VÍS borist 50 tilkynningar um tjón vegna óveðurs víða um land í gær og fyrri nótt. Þetta segir Björn Friðrik Brynjólfsson, fjölmiðlafulltrúi VÍS.

Aðspurður hvort félagið hafi hugmynd um fjárhagslegt umfang tjónanna á þessu stigi málsins segir hann svo ekki vera. „Það er engin leið að átta sig á því strax," segir Björn.

Viðvaranir hafi skilað árangri

Björn segir viðbúið að fleiri tilkynningar muni berast á næstu dögum. „Það má kannski búast við því að einhverjir sumarhúsaeigendur hafi samband þegar þeir eru búnir að fara og athuga með eigur sínar."

Hann segir líklegt að viðvaranir tryggingafélaga og Veðurstofu hafi afstýrt tjónum, enda hafi margir verið búnir að undirbúa sig vel fyrir veðurofsann. „Ég held að það hafi skilað einhverjum árangri. Við vitum til þess að margir hafi búið sig undir veðrið," bætir hann við.