Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í gær Vátryggingarfélag Íslands hf. til að greiða Lífsverki rúmlega 852 milljónir króna auk vaxta og dráttavaxta sem nema samtals um 416 milljónum króna.  Um er að ræða kröfu Lífs­verks í ábyrgð­ar­trygg­ingu stjórnar og stjórn­enda, þar sem VÍS er vátryggj­andi.

Í til­kynn­ingu VÍS til kaup­hallar , kemur fram að félagið sé end­ur­tryggt gagn­vart tjónum sem þessum að stærstum hluta. End­ur­trygg­inga­stefna félags­ins geri ráð fyrir að ekk­ert stakt tjón geti lækkað gjald­þol þess um meira en þrjú pró­sent. Fjár­hæðin sem fallið getu í hlut VÍS í þessu máli sé því innan marka stefn­unnar og hafi að stórum hluta verið færð í tjóna­skuld félags­ins frá árinu 2013.

Ágreiningur félaganna snérist um tvær fjár­fest­ingar sem þáver­andi stjórn og stjórn­endur líf­eyr­is­sjóðs­ins tóku ákvarð­anir um, í mars og sept­em­ber 2008. Um var að ræða fjárfestingar í svo­nefndum láns­hæf­istengdum skulda­bréfum (e. credit lin­ked not­es), sem gefin voru út af sviss­neska bank­anum UBS AG, Jersey  Branch, en fjár­fest­ingar þessar voru gerðar fyrir milli­göngu Lands­banka Íslands.

Lífsverk byggði m.a. á því að ákvarðanir fyrrum stjórnenda sjóðsins og umræddar fjárfestingar samkvæmt þeim hafi verið ólögmætar þar sem þær hafi stangast á við þær fjárfestingarheimildir sem lífeyrissjóðir njóta skv. 36.gr. laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

VÍS hefur þegar tekið ákvörðun um að áfrýja dómnum til Hæstaréttar.