VÍS hagnaðist um ríflega 2,5 milljarða króna árið 2019 og jókst hagnaður félagsins um 22,6% milli ára en arðsemi eiginfjár á árinu var 17,2 sem er sú hæsta frá skráningu félagsins á hlutabréfamarkað. Hagnaður félagsins á fjórða ársfjórðungi nam 729 milljónum og jókst um 21,8% milli ára.

Eigin iðgjöld námu 22,6 milljörðum króna á árinu og jukust um 3,1% milli ára á meðan eigin tjón námu 17,5 milljörðum og jukust um 4%. Samsett hlutfall sem er tjónakostnaður, endurtryggingakostnaður og rekstrarkostnaður af vátryggingahluta sem hlutfall af iðgjöldum var 99,4% á árinu og hækkaði um 0,7 prósentustig milli ára.

Fjárfestingartekjur ársins námu 3.551 milljónum króna og jukust um 25,6% milli ára.

Í tilkynningu vegna uppgjörsins kemur fram að VÍS muni greiða 2.008 milljónir í arðgreiðslu vegna ársins 2019 eða um 80% af hagnaði ársins.