*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 21. ágúst 2020 16:36

VÍS hækkar mest í kjölfar uppgjörs

Hlutabréf Eikar lækkuðu örlítið í viðskiptum dagsins og hafa þau aldrei verið lægri en þau voru skráð á Aðalmarkað árið 2015.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Vísitala OMXI10 hækkaði um 0,67% í viðskiptum dagsins og stendur í tæplega 2.100 stigum. Heildarviðskipti dagsins námu 1,1 milljarði króna, þar af námu viðskipti með Marel 96 milljónum en hlutabréf félagsins hækkuðu um 1,42% í dag.

Mest hækkuðu bréf VÍS um 2,46% í mestum viðskiptum dagsins sem námu 429 milljónum króna. VÍS birti árshlutauppgjör í gær þar sem fram kom að tap félagsins það sem af er ári nam tæplega milljarði króna en það hagnaðist um 916 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi.

Sjá einnig: VÍS tapað tæplega milljarði króna

Næst mest hækkun var á bréfum Kviku banka eða 1,73%. Félagið birti einnig árshlutauppgjör í gær en bankinn hagnaðist um 588 milljónir á öðrum ársfjórðungi sem er 21,2% samdráttur milli ára.

Sjá einnig: Hagnaður Kviku minnkar um 21%

Hlutabréf Icelandair lækkuðu um 7,56% sem er mesta lækkun dagsins. Bréfin standa nú í 1,1 krónu hvert en heildarvelta nam þremur milljónum króna. Hlutabréf Regins lækkuðu um 1,69% og hlutabréf Eikar lækkuðu um 0,16%, þau standa nú í 6,14 krónum og hafa aldrei verið lægri.

Gengi krónunnar hefur lækkað allnokkuð gagnvart öllum sínum helstu viðskiptamyntum. Sú þróun hélt áfram í dag þar sem krónan lækkaði meðal annars um 0,83% gagnvart Bandaríkjadal og 0,78 gagnvart japanska jeninu. Evran fæst nú á 163 íslenskar krónur og Bandaríkjadalur fæst á ríflega 138 krónur.

Stikkorð: VÍS Eik kauphöll OMXI10