Hagnaður VÍS af reglulegri starfsemi í fyrra var 204 milljónir króna samanborið við 1.164 milljónir árið 2009. Um 600 milljóna króna hagnaður var af vátryggingastarfsemi í fyrra, sem er svipað og árið á undan.

Eiginfjárhlutfall VÍS er 31,8%  og er eigið fé félagsins um 11,1 milljarður króna. Heildareignir eru upp á rúmlega 35 milljarða króna.

Í fréttatilkynningu frá VÍS er haft eftir Guðmundi Erni Gunnarssyni, forstjóra VÍS, að afkoman á árinu 2010 sé mikil vonbrigði. Hann segir ljóst að eitt af meginverkefnum félagsins á næstunni verði að auka arðsemi af fjárfestingum en erfiðar aðstæður á fjármálamörkuðum og lækkandi vaxtatekjur hafi sett stórt strik í reikninginn árið 2010, auk þess sem afskriftir viðskiptakrafna einstaklinga og fyrirtækja hafi verið meiri en áður.

Heildartekjur VÍS af vátryggingastarfsemi árið 2010 voru 16,1 milljarður króna samanborið við 15,9 milljarða árið 2009. Rekstarkostnaður hækkaði um 13,7% milli ára, fór í 3,1 milljarð miðað við 2,7 milljarða árið 2009. Muninn má að nokkru leyti rekja til afskrifta viðskiptakrafna.