Vátryggingafélag Íslands skilaði hagnaði upp á 733 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi 2015, en þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Er það öllu betri niðurstaða en á sama tíma í fyrra þegar fyrirtækið skilaði 14 milljóna króna tapi.

Fjármunatekjur námu 1.113 m.kr. samanborið við 171 m.kr. fyrir sama tímabil í fyrra. Iðgjöld námu 3.959 m.kr. samanborið við 3.861 m.kr. í fyrra og nemur hækkunin 2,6%.

Framlegð af vátryggingarekstri var neikvæð um 165 m.kr. en á sama tímabili í fyrra var hún neikvæð um 66 m.kr. Rekstrarkostnaður nam 976 m.kr. og lækkar um 25 m.kr. frá sama tímabili árið 2014. Samsett hlutfall var 105,2% en var 102,9% á sama tíma í fyrra.

Heildareignir í lok tímabilsins námu 50.738 m.kr. samanborið við 46.466 í árslok 2014. Fjárfestingaeignir félagsins námu 35.379 m.kr. en voru 34.658 í árslok 2014.

Eigið fé félagsins lækkaði milli ára en það nam nú 13.987 m.kr. samanborið við 15.956 í árslok 2014. Eiginfjárhlutfall var 27,6% í lok tímabilsins. Arðsemi eigin fjár var 18,3% á tímabilinu á ársgrunni. Á tímabilinu var skuldfærður arður að fjárhæð 2.488 m.kr. sem greiddur var til hluthafa þann 9. apríl s.l.

„Afkoma félagsins á fyrsta ársfjórðungi ársins var umfram væntingar og skýrist aðallega af mjög góðri ávöxtun af fjárfestingaeignum félagsins á tímabilinu, en hún nam 3,2%. Afkoma félagsins af vátryggingastarfsemi var ágæt ef litið er framhjá áhrifum óveðursins þann 14. mars síðast liðinn.

Óveðrið olli talsverðu tjóni hjá landsmönnum og í lok mars höfðu ríflega 500 tjón verið tilkynnt til félagsins vegna þess og bókfærð tjón komin yfir 240 milljónir króna. Þetta er mesta tjón sem orðið hefur í einu óveðri hjá félaginu síðan febrúar 1991, en í desember 2007 voru þrjú óveður sem ollu til samans svipuðu tjóni,“ segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, um uppgjörið.