Vátryggingafélag Íslands (VÍS) hagnaðist um 1.459 milljónir króna árið 2016 borið saman við 2.076 milljónir árið 2015. Hagnaður félagsins dregst því saman um 29,7% milli ára. Samsett hlutfall var 101,7% en var 101,5% árið áður. Tekjur af fjárfestingastarfsemi námu 1.997 milljónir samanborið við 4.076 milljónir árið áður. Hagnaður á hlut nam 0,65. Þetta kemur fram í ársuppgjöri VÍS fyrir árið 2016.

Hagnaður á fjórða ársfjórðungi nam 867 milljónum króna borið saman við 86 milljónir á sama tímabili í fyrra. Samsett hlutfall var 100,4% en var 92,2% í fyrra. Tekjur af fjárfestingastarfsemi námu 959 milljónum samanborið við 1.103 milljónir á sama tíma 2015.

Stjórn VÍS leggur til að arður upp á 0,46 kr. á hlut verði greiddur út til hluthafa. Heildarfjárhæð arðgreiðslunnar er um 1.023 milljónir króna. Í tilkynningu frá VÍS segir að félagið sjái vaxtartækifæri á markaðnum og telur arðgreiðslutillöguna ekki skerða möguleika félagsins til nýtingar þeirra.

Í tilkynningu frá VÍS er haft eftir Jakob Sigurðssyni, forstjóra VÍS, að afkoman á fjórða ársfjórðungi hafi verið betri en oft áður.

„Það er jákvætt að iðgjöld eru farin að aukast eftir nokkurra ára stöðnun, en eigin iðgjöld jukust um 10,2% á milli ára. Vöxturinn kemur til bæði vegna hærra meðaliðgjalds og fjölgunar skírteina. Viðskiptavinum félagsins er að fjölga og einnig eru núverandi viðskiptavinir í meiri viðskiptum við okkur en áður. Samsett hlutfall er heldur hærra en það var árið 2015, og það verður áfram verkefni félagsins að ná því niður. Ávöxtun fjárfestingaeigna gekk nokkuð vel við erfiðar markaðsaðstæður lengst af á árinu, og nam 7,1%. Gjaldmiðlatap af eignum sem tilheyra erlendri starfsemi félagsins hefur neikvæð áhrif á afkomu fjárfestingastarfseminnar, en það nam 641 m.kr. á árinu.

Á fjórða ársfjórðungi gekk rekstur félagsins ágætlega og nam hagnaðurinn 867 m.kr. sem er mesti hagnaður á einum fjórðungi síðan á þriðja ársfjórðungi 2013.  Góð afkoma skýrist af ágætri ávöxtun fjáreigna og betri afkomu af vátryggingarekstri en oft áður,“ segir Jakob.

Til stendur að endurskoða stefnu VÍS, segir Jakob.

„Nú stendur yfir rýni og endurskoðun á stefnu VÍS með víðtækri þátttöku stjórnar og starfsfólks. Við gerum ráð fyrir að kynna niðurstöður þeirrar vinnu á vormánuðum. Auður VÍS liggur ekki síst í frábæru starfsfólki um allt land sem hefur unnið frábært starf í krefjandi verkefnum. Það er ekki síst þeim að þakka að VÍS er jafn öflugt félag og raun ber vitni.“

Samkvæmt tilkynningu VÍS eru gert ráð fyrir því að iðgjöld haldi áfram að vaxa árið 2017. Reiknað er með að samsett hlutfall verði undir 100%.