Tryggingafélagið VÍS hagnaður um þrjá milljarða króna á síðasta ári. Þetta var talsverð uppsveifla á milli ára en hagnaður félagsins nam 408 milljónum króna árið 2011.

Fram kemur í uppgjöri VÍS að iðgjöld námu 16.460 milljónum króna og var það 5,8% aukning á milli ára. Þá námu fjármunatekjur 3.936 milljónum króna og var það hvorki meira né minna en 95,9% bati frá árinu 2011.

Eigið fé VÍS nam 14.470 milljónum króna í lok síðasta árs samanborið við 11.584 milljónir árið á undan. Heildareignir í árslok námu 43.452 milljónum króna samanborið við 38.190 milljónir í lok árs 2011. Eiginfjárhlutfall var 33,3% í árslok samanborið við 30,3% í árslok 2011. Arðsemi eigin fjár var 23,2% samanborið við 3,6% árið 2011.

Í tilkynningu frá VÍS eftir haft eftir Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur forstjóra að reksturinn hafi gengið vel og efnahagurinn mjög traustur.

Sala hlutafjár og skráning í Kauphöll

Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um seint í janúar er stefnt að skráningu VÍS á markað. Í tilkynningu VÍS sem fylgdi með uppgjöri félagsins segir að stjórn VÍS hafi óskað eftir því við Kauphöll Íslands að hlutabréf í VÍS verði skráð í Kauphöllina. Í aðdraganda þess áformar Klakki ehf., eigandi VÍS, að bjóða almenningi og fagfjárfestum að kaupa meirihluta hlutafjár í VÍS í útboði sem Fjárfestingabankasvið Arion banka hefur umsjón með. Útboðið er fyrirhugað í apríl.

Í tilkynningu VÍS segir að með skráningu VÍS á markað er stuðlað að auknum seljanleika og virkari verðmyndun með hlutabréf félagsins, dreifðu eignarhaldi og að upplýsingar um félagið verði aðgengilegar fyrir hluthafa félagsins, viðskiptavini og allan almenning.