Hagnaður VÍS fyrir skatta nam 368 milljónum króna í fyrra og dróst saman um 95% frá fyrra ári eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Eignir í árslok 2008 námu 32 milljörðum króna og eigið fé var um 10 milljarðar. Af eignasafninu námu ríkistryggðar eignir og bankainnistæður um 20 milljörðum króna. Eiginfjárhlutfall VÍS var 30% um áramótin síðustu og gjaldþol var 4,4 sinnum hærra en lágmarksgjaldþol. Þetta er nokkur lækkun frá árinu 2007 þegar margfeldið var 5,5, eins og sjá má í ársreikningi.

Traust eignastaða

Í tilkynningu frá VÍS er haft eftir Guðmundi Erni Gunnarssyni forstjóra að uppgjörið sýni styrk félagsins í mjög erfiðu árferði. „Varfærin fjárfestingarstefna og aðhald í rekstri hefur svo sannarlega borgað sig. Traust eignastaða er gífurlegt öryggisatriði fyrir viðskiptavini VÍS og átti félagið ríkistryggðar eignir og innstæður á móti nær allri vátryggingaskuld félagsins í árslok.“

Samsett hlutfall hækkar, en var þó hærra á árum áður

Samsett hlutfall í vátryggingastarfsemi, sem er skilgreint sem tjónakostnaður og rekstrarkostnaður sem hlutfall af iðgjöldum, var 111% í fyrra en 105% árið 2007. Í tilkynningu félagsins segir að hækkunin skýrist einkum af aukningu tjóna vegna slæms veðurs á fyrri hluta ársins og af verðlagshækkunum undir lok árs. Hlutfallið er þó lægra eða svipað og árin þar á undan, en árið 2005 fór það til dæmis yfir 116%.

Hagnaður af ökutækjatryggingum

Hagnaður af lögboðnum ökutækjatryggingum nam 1,4 milljörðum króna í fyrra, sem er svipuð afkoma og árið 2007. Aðrar ökutækjatryggingar voru reknar með tapi bæði árin og sömu sögu er að segja um eignatryggingar.