Þó nokkrar breytingar hafa átt sér stað á eignarhaldi fjármálafyrirtækisins T Plús, en á síðustu vikum hafa þrír aðilar fjárfest í fyrirtækinu. „Fossar markaðir og Festa lífeyrissjóður hafa hvor um sig keypt 10% hlut í fyrirtækinu á síðustu vikum. Auk þess hefur VÍS keypt 15% hlut í fyrirtækinu en kaupin eru háð samþykki FME. Íslensk verðbréf, sem var langstærsti hluthafinn, hafa að sama skapi minnkað eignarhlut sinn og er eignarhlutur fyrirtækisins kominn í sambærilega stærð og hjá þessum félögum sem voru að fjárfesta í okkur," segir Þórleifur Stefán Björnsson, framkvæmdastjóri T Plús.

Þórleifur segir að fyrirtækið sé afskaplega ánægt með þetta, þar sem þarna séu öflugir aðilar að fjárfesta í félaginu. „Þessi félög virðast hafa trú á því að það þurfi að þrífast eitt gott innviða fjármálafyrirtæki á Íslandi, enda er það í okkar huga framtíðin. Ef við horfum til dæmis á nýlegt dæmi sem styður við þá sýn okkar, er það sú staðreynd að í Hvítbókinni er heilum kafla varið í þá umræðu að það sé hagkvæmt fyrir íslenska fjármálageirann að sameinast um innviði. Þessi háttur er hafður á víða erlendis og ef við horfum til dæmis á Norðurlöndin þá virðast fjármálafyrirtækin þar ekki eiga í neinum vandræðum með að sameinast um kerfi og innviði, með það að sjónarmiði að draga úr rekstrarkostnaði, auka hagkvæmni og þægindin. Svo lítum við líka svo á að með því að bjóða þetta sérhæfða þjónustu þá séum við að draga úr aðgangshindrunum inn á þennan markað. Verðbréfafyrirtæki og rekstrarfélög verðbréfasjóða eiga þá mun auðveldara með að koma sér af stað, vitandi það að þau geta keypt þjónustu af fyrirtæki með þessa sérhæfingu."

Sérhæfa sig í bakvinnsluþjónustu

T Plús er verðbréfafyrirtæki með starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu sem sérhæfir sig í bakvinnsluþjónustu. Að sögn Þórleifs má í raun segja að þetta sé innviða fjármálafyrirtæki. „Viðskiptavinir okkar eru að stóru leyti fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir, tryggingafélög, sparisjóðir og fleiri svipuð fyrirtæki. Félagið á rætur sínar að rekja til Saga Capital og Íslenskra verðbréfa. Þessi félög ákváðu að stofna T Plús árið 2009, til þess að tryggja eigin bakvinnslur. Eins og menn muna þá var óróleiki á mörkuðum á þessum tíma og Saga Capital var að útvista sinni bakvinnslu til Arion verðbréfavörslu. Úr varð því að Saga Capital ásamt Stapa lífeyrissjóði og Íslenskum verðbréfum, þrýsti á að farið yrði af stað með eigið bakvinnslufélag - til þess að menn væru tryggir um þessa starfsemi.

Við erum aðili að Nasdaq verðbréfamiðstöð og vörslum verðbréf. Við sjáum mikið um verðbréfavörslu fyrir lífeyrissjóði og erum með í vörslu okkar á fimmta hundrað milljarða í verðbréfum fyrir íslenska lífeyrissjóði. Þeir kjósa að vera hjá okkur ekki síst vegna þess að þeir fá þá armslengd frá þeim aðilum sem eru að selja þeim verðbréf. Það er ákveðinn staðall í þessum geira um allan heim að lífeyrissjóðir varsli bréfin sín á öðrum stað en þeir kaupa þau. Þetta er þjónusta sem hefur stækkað mikið undanfarin ár."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .