Hluthafafundur VÍS samþykkti tillögu stjórnar um stefnu um fjármagnsskipan félagsins. Stefnan kveður á um að eiginfjárhlutfall félagsins skuli vera á bilinu 25-28% eftir þrjú til fimm ár og samhliða skuli verða dregið úr markaðsáhættu félagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu VÍS til kauphallar Nasdaq.

Jafnframt samþykkti hluthafafundurinn tillögu stjórnar félagsins um að lækka hlutafé félagsins um 250 milljónir króna, úr 2.202.642.307 króna í 1.952.642.307 króna, með greiðslu til hluthafa að fjárhæð 1.800.000.000 króna. Verður lækkunin greidd með afhendingu hlutabréfa í Kviku banka hf.

Fjöldi hlutabréfa í Kviku banka hf. sem afhent verða hluthöfum á greiðsludegi mun miðast við meðalverð viðskipta með hlutabréf í Kviku banka hf. síðustu fimm viðskiptadaga fyrir greiðsludag hlutafjárlækkunarinnar.

Tillagan var samþykkt með fyrirvara um samþykki Fjármálaeftirlitsins, að fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra veiti félaginu undanþágu frá innköllunarskyldu og að lögboðnum forsendum sé að öðru leyti fullnægt.

Lækkunarfjárhæð sem er umfram nafnverð, eða kr. 1.550.000.000, mun verða færð til lækkunar á óráðstöfuðu eigin fé félagsins.

Að því tilskildu að fyrirfyrirvörum hlutafjárlækkunarinnar verði fullnægt, mun greiðsla til hluthafa vera innt af hendi svo fljót sem auðið er, en aldrei fyrr en sjö viðskiptadögum eftir að fyrirvörum er fullnægt. Þá mun félagið senda tilkynningu til kauphallar og upplýsa nánar um framkvæmd lækkunarinnar, þ.m.t. um greiðsludag. Við útgreiðslu til hluthafa verður miðað við hlutaskrá félagsins í lok viðskiptadags fimm viðskiptadögum fyrir greiðsludag.

Útgreiðsla hlutafjárlækkunarinnar er skilyrt við að fjöldi hlutabréfa í Kviku banka hf., sem þarf til útgreiðslu hlutafjárlækkunarinnar, fari ekki umfram 300.000.000 hluti en sé skilyrðinu ekki fullnægt verður fallið frá hlutafjárlækkuninni.