Það sem af er degi hefur Úrvalsvísitala kauphallar Nasdaq á Íslandi lækkað um 0,25%, en viðskiptin í dag nema um 900 milljónum króna.

Gengi bréfa VÍS hefur lækkað mest, eða um 3,04% í 94 milljóna króna viðskiptum og er gengið nú komið niður í 11,80 krónur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá tilkynnti félagið eftir lokun markaða í gær að bruni í atvinnuhúsnæði í Fornubúðum í Hafnarfirði hefði m.a. leitt til hækkunar samsetts hlutfalls félagsins, sem endurspeglar kostnað á móti iðgjöldum.

Næst mesta hækkunin er einnig hjá tryggingafélagi, eða Sjóvá og hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 2,91% í 78 milljóna viðskiptum, niður í 16,70 krónur. Þriðja tryggingafélagið í kauphöllinni, TM hefur einnig lækkað nokkuð eða um 1,58%, niður í 31,10 krónur, í 86 milljóna króna viðskiptum.

Önnur félög sem lækka töluvert má nefna Haga sem lækka um 2,44% í 115 milljóna viðskiptum, niður í 40,0 krónur og Reitir sem lækka um 1,31%, niður í 75,20 krónur. Þrjú félög hafa hækkað í viðskiptum dagsins, Arion banki, Marel og Icelandair en allt er það í litlum viðskiptum.