Vátryggingafélag Íslands leitar nú fyrir sér á dönskum markaði, en Ásgeir Baldurs framkvæmdastjóri segir að möguleikarnir séu þrír -- kaupa lítið fyrirtæki og gera það öflugara, kaupa fyrirtæki sem hefur náð fótfestu á dönskum markaði og stofna nýtt fyrirtæki og byrja frá grunni. "Við höfum skilgreint Norðurlöndin og Bretland sem útvíkkun á okkar heimamarkaði," segir hann, "og þetta væri í samræmi við þá stefnu."

Ásgeir segir að félagið hafi verið að leita að samstarfsaðilum í Danmörku, en ekkert áþreifanlegt liggi fyrir eins og standi. "Við höfum ekki átt í beinum viðræðum við nein félög, en það er grundvallaratriði hjá okkur að eiga heimamenn sem samstarfsaðila í því sem við erum að gera."

Danska viðskiptablaðið Børsen fjallaði um áform Vátryggingafélagsins á mánudaginn. Þar segir að VÍS hafi gert tilboð í danska tryggingafélagið Købstædernes Forsikring, en Ásgeir vísar því á bug. "Það er ekkert hæft í þeirri frétt," segir hann.

Afkoma tryggingafélaga í Danmörku er almennt betri en hér á landi, segir Ásgeir. "Þar eru mörg tryggingafélög og markaðurinn er dreifður, en það eru möguleikar í Danmörku," segir hann.