Meðal nýrra hluthafa í tölvufyrirtækinu Nýherja er tryggingafélagið VÍS. Það setti um 150 milljónir króna inn í félagið, að því er Guðmundur Örn Gunnarsson, forstjóri VÍS, staðfesti við Viðskiptablaðið.

Hann sagði brýna þörf vera fyrir endurreisn efnahagslífsins og sagði vilja hjá VÍS til þess að taka þátt í henni á grunni sterkrar fjárhagsstöðu félagsins.

Í lok árs í fyrra var VÍS með um tæplega 11 milljarða í eigin fé, þ.e. eignir umfram skuldir. Arðsemi eiginfjár var 11,2%.

Ekki hefur verið gefið upp hvaða aðilar settu inn nýtt hlutafé í Nýherja en það nam um 840 milljónum króna, samkvæmt tilkynningu félagsins til Kauphallar Íslands.