Tryggingafélagið VÍS hefur keypt 3,06 prósenta eignarhlut Eignasafns Seðlabanka Íslands (ESÍ) í Kviku. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins . Eftir kaupin á VÍS um 25 prósenta hlut og er því langstærsti hluthafi fjárfestingabankans. Hlutur ESÍ var auglýstur til sölu nýverið.

VÍS keypti 22 prósenta hlut í Kviku í byrjun árs fyrir 1.655 milljónir króna. Þó liggur það ekki fyrir hvað félagið greiddi fyrir hlut Seðlabankans í Kviku ef gengið var hið sama og í janúar síðastliðnum, þegar VÍS keypti bréf í bankanum fyrir 5,4 krónur á hlut, þá nemur kaupverðið um 230 milljónum króna.

Í hluthafahópi Kviku eru einnig tveir stærstu einkafjárfestarnir í VÍS sem eiga samanlagt fimmtán prósenta hlut. Það eru hjónin Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir og Guðmundur Örn Þórðarson, sem áður voru aðaleigendur Skeljungs, sem eignuðust ríflega átta prósenta hlut í Kviku banka síðastliðinn desember en einnig keypti félagið Grandier ehf., sem er í eigu Sigurðar Bollasonar og meðfjárfesta, keypti á sama tíma um sjö prósent. VÍS og stórir hluthafar eiga því um 40 prósenta hlut í Kviku banka.

Eins og áður hefur verið greint frá þá hefur komið fram í bréfi Svanhildar Nönnu, stjórnarformanns VÍS, til fjárfesta, að með kaupum VÍS á stórum hlut í Kviku hafi verið „opnað dyr á frekari útvíkkun“ á starfsemi tryggingarfélagsins.