Klakki (áður Exista) ætlar að selja 60% til 70% hlut í Vátryggingafélagi Íslands (VÍS) í almennu útboði fyrir skráningu félagsins á markað. Það er Fyrirtækjaráðgjöf Fjárfestingarbankasviðs Arion banka sem hefur umsjón með útboðinu. Klakki hyggst ekki selja einstökum fjárfesti virkan eignarhlut í félaginu, en kaup á 10% hlut eða stærri í tryggingafélagi eru háð því að samþykki Fjármálaeftirlitsins liggi fyrir. Gengið verður 6,75 til  7,95 krónur á hlut. Það svarar til þess að heildarvirði hlutafjár VÍS nemi 16,9 til 19,9 milljörðum króna.

Fram kemur í tilkynningu að útboðið hefst föstudaginn 12. apríl og lýkur klukkan 16.00 þriðjudaginn 16. apríl næstkomandi. Stjórn VÍS hefur óskað eftir því að hlutabréf félagsins verði tekin til viðskipta á Aðallista Kauphallar Íslands í kjölfar útboðsins.

Í tilkynningunni segir að stefnt sé að því að útboðið marki grunninn að dreifðu eignarhaldi á VÍS og er þá bæði horft til þess að almenningur og fagfjárfestar eignist hlut í félaginu og geri félaginu kleift að uppfylla lágmarksskilyrði um dreifingu hlutafjár sem gerð eru til félaga sem fá hlutabréf skráð í Kauphöll Íslands.

Svona verður útboðið

Í tilkynningunni um útboðið segir orðrétt:

„Fjárfestum eru boðnar þrjár áskriftarleiðir, eða svokallaðar tilboðsbækur. Seljandi óskar eftir áskriftum á verðbilinu 6,75–7,95 krónur á hlut í tilboðsbækur A og B, sem samsvarar því að heildarandvirði hlutafjár í VÍS sé 16,9–19,9 milljarðar króna. Í tilboðsbók A eru 10% hlutabréfa í VÍS boðin fjárfestum sem vilja kaupa hlut að andvirði á bilinu frá 100 þúsund krónur til 50 milljónir, en í tilboðsbók B eru boðin 30,1% til fjárfesta sem skrá sig fyrir kaupum yfir 50 m.kr. Þessir hlutir verða allir seldir á sama endanlega útboðsgengi sem seljandi ákveður í lok áskriftartímabilsins, en það verður á framangreindu verðbili. Ákvörðun á verði þeirra hluta sem seldir verða í tilboðsbók C verður ekki með sama hætti, þar sem seljandi býður fjóra 2,475% eignarhluti, samtals 9,9%, og er lágmarksverð þeirra 6,75 krónur á hlut, en öllum hlutum sem seldir verða í tilboðsbók C verður úthlutað á því gengi sem viðkomandi fjárfestir býður. Auk þessarar grunnskiptingar, mun seljandi ráðstafa 10-20% í eina eða fleiri af tilboðsbókunum eftir því sem verð og magn eftirspurnar gefur tilefni til að hans mati.“

Lýsing VÍS