Greiningardeild Capacent mat virði Sjóvár á 16 krónur á hlut, virði TM á 26,4 krónur á hlut og virði VÍS á 8,7 krónur á hlut miðað við 26. febrúar síðastliðinn. Markaðsgengi Sjóvár var 20% lægra, gengi TM 13% lægra og gengi VÍS 10% hærra í viðskiptum í gær.

Capacent segir að tryggingafélög geti verið mjög ábatasöm ef tjóna- og rekstrarkostnaður er að meðaltali jafn eða lægri en heildariðgjöld. Sú sé þó ekki staðan á Íslandi og hátt samsett hlutfall íslenskra tryggingafélaga sé meginorsökin fyrir því að íslensk félög séu lágt verðmetin í samanburði við sambærileg evrópsk félög. Vöxtur iðngjalda hafi ekki haldið í við hagvöxt og verðlagsbreytingar undanfarin ár. Aukinn hagvöxtur og umferðarþungi muni líklega valda hækkandi tjónahlutfalli hjá tryggingafélögunum á næstu árum, og því gæti verið útlit fyrir erfið rekstrarár hjá þeim næstu tvö árin.