Vátryggingafélag Íslands hf. er einn af helstu samstarfsaðilum Þjóðminjasafns Íslands næstu þrjú árin samkvæmt samningi sem Finnur Ingólfsson, forstjóri VÍS, og Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, hafa undirritað.

VÍS mun greiða safninu 5 milljónir króna á ári, alls 15 milljónir króna á samningstímabilinu. Gert er ráð fyrir að fjármununum verði einkum varið til undirbúnings margmiðlunarefnis fyrir grunnsýningu Þjóðminjasafnsins um sögu Íslands frá landnámi til nútíma sem ber heitið Þjóð verður til-menning og samfélag í 1.200 ár.

?Það er okkur í senn heiður og ánægja að geta með þessum hætti stuðlað að metnaðarfullri starfsemi safnsins, enda í fullu samræmi við þá stefnuyfirlýsingu VÍS að styðja og styrkja verkefni sem horfa til heilla fyrir land og þjóð,? segir Finnur Ingólfsson forstjóri.

Samstarf VÍS og safnsins verður í nafni Framfarasjóðs Þjóðminjasafns Íslands sem VÍS stofnaði ásamt Landsvirkjun, Bakkavör Group og KB banka. Markmið sjóðsins er að styrkja ímynd safnsins, afla fjár og ráðstafa því í samræmi við tillögur Þjóðminjasafnsins.