Tryggingafélagið VÍS hefur gert samkomulag við Fjármálaeftirlitið um að greiða 2 milljónir króna í sekt og viðurkenna brot á lögum um verðbréfaviðskipti, eftir að því láðist að birta flöggunartilkynningu í tæpa 4 mánuði.

Forsaga málsins er sú að 17. nóvember 2017 tilkynnti fjárfestingasjóður Eaton Vance tryggingafélaginu að atkvæðisréttur sinn hefði farið undir 5% mörkin, eins og lög gera ráð fyrir.

VÍS bar þá lögum samkvæmt skylda til að birta tilkynninguna eigi síðar en á hádegi næsta dag. Hún var hinsvegar ekki birt fyrr en tæpum 4 mánuðum síðar, þann 7. mars 2018.

Í gagnsæistilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu um málið, sem birt var á föstudag, segir einnig: „Við ákvörðun sektarfjárhæðar hefur Fjármálaeftirlitið litið til mikilvægis flöggunartilkynninga en þeim er ætlað að treysta gagnsæi fjármálamarkaðar með því að upplýsa um þá sem ráða yfir verulegum hlut atkvæðisréttar í útgefanda og eru líklegir til að hafa áhrif á stjórnun hans. Sektarfjárhæðin tók ennfremur mið af tímalengd brotsins og að málsaðili upplýsti sjálfur um brotið.“

Samkomulagið felur ennfremur í sér að VÍS grípi til ráðstafana til að stuðla að því að atvik sem þetta eigi sér ekki stað á ný.