Vátryggingafélag Íslands hefur selt 14.000.000 hluti í Nýherja og lækkar eignarhlutur fyrirtækisins úr 6,5% í 3,09% við viðskiptin. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar .

Miðað við núverandi gengi hlutabréfa í Nýherja nema viðskiptin í heild tæpum 145 milljónum króna. Eftir viðskiptin á VÍS 3,09% hlut í félaginu að virði tæpra 130 milljóna króna.

Gengi hlutabréfa í Nýherja hefur rokið upp síðustu daga eftir að fyrirtækið tilkynnti um að 25% eignarhlutur þess í Tempo yrði settur í lokað söluferli. Verðið stóð í 8,36 krónum á hlut þegar tilkynnt var um söluferlið en stendur nú í 10,36 krónum á hlut. Hefur verðið því hækkað um nærri fjórðung á fáeinum dögum.