VÍS er stærsta tryggingafélag landsins ef horft er út frá bókfærðum iðgjöldum skaðatryggingafélaga á síðasta ári. Bókfærð eigin iðgjöld skaðatryggingafélaga námu um 38,3 milljörðum króna og var markaðshlutdeild VÍS um 35%.

Sjóvá-Almennar (gamla og nýja félagið) var með 27%, TM með rúm 24% og Vörður með 8% hlut. Heildariðgjöld trygggingafélaga hækkuðu um 10,5% á milli áranna 2008 og 2009. Iðgjöld hækkuðu um rúm 10% á milli ára.

Verulegur viðsnúningur í eignatryggingum

Ökutækjatækjatryggingar eru langstærsti tryggingaflokkurinn en helmingur heildariðgjalda tryggingafélaga á síðasta ári komu úr þessum flokki, eða 20 milljarðar samkvæmt tölum Fjármálaeftirlitsins. Iðgjöld í þessum flokki jukust um 7,6% sem var í takti við verðbólguna fyrir árið.

Samanlagður hagnaður tryggingafélaga af ökutækjatryggingum var um 1.650 milljónir króna. Hlutur VÍS af heildariðgjöldum var 35%, Sjóvár um 30% og TM um 23%. Ætla má að hlutur lögboðinna ökutækjatrygginga sé um 36% af heildariðgjöldum og hlutur frjálsra ökutækjatrygginga um 17%.

Annar stærsti tryggingaflokkurinn eru eignatryggingar sem eru um fjórðungur af heildinni. Þar varð verulegur afkomubati á síðasta ári en alls högnuðust íslensku tryggingafélögin um 2,7 milljarða króna sem var um 7,4 milljarða króna viðsnúningur frá fyrra ári. Bókfærð heildariðgjöld námu 9,6 milljörðum og jukust um 19% á milli ára.

- Sjá nánar í Viðskiptablaðinu