VÍS verður einn aðalbakhjarl Vilborgar Örnu Gissuradóttur en hún stefnir að því að klífa hæstu fjallstinda hverrar heimsálfu. Það ætlar hún að gera á næstu mánuðum. Í kjölfarið ætlar hún að ganga norðurpólinn en fyrir um árið síðan gekk Vilborg Arna suðurpólinn. Hún hefur þegar farið tvo tinda, það eru Denali í Alaska og Elbrus í Rússlandi. Hún mun klífa Everest í maí á næsta ári.

Fram kemur í tilkynningu um styrkveitingu VÍS að leyfi og þjónusta við göngu upp Everest kosti um 7,3 milljónir króna. „Þetta úthald er mjög kostnaðarsamt og gífurlega mikilvægt fyrir mig að fá öfluga bakhjarla. Til að mynda kostar 7,3 milljónir króna bara að fá að glíma við Everest; það er fyrir leyfi og þjónustu á fjallinu. Ofan á það bætist kostnaður við búnað og ferðalög. Fyrir tilstilli VÍS og fleiri góðra fyrirtækja eru allir vegir færir. Við komumst saman á toppinn,“ segir Vilborg Arna.

„Hún er góð fyrirmynd og hvatning til allra að láta drauma sína rætast. Afrekum hennar verður varla lýst með orðum. Þrautseigjan, útsjónarsemin og skynsemin sem hún sýndi á suðurpólnum er aðdáunarverð og markmiðin áfram mjög metnaðarfull. Við erum samstíga í að stuðla að góðum undirbúningi, fagmennsku og forvörnum í hverju því sem að höndum ber. VÍS er stolt af að vera í liði með valkyrjunni Vilborgu Örnu,“ segir Sigrún Ragna Ólafsdóttir, forstjóri VÍS, í tilkynningunni.