VÍS er einn af aðalstyrktaraðilum  Mænuskaðastofnunar Íslands.

Með því vill félagið stuðla að því að hægt verði að bjóða fjölbreyttari meðferðarúrræði við mænuskaða og auka líkurnar á því að þeir sem verða fyrir slíkum skaða nái styrk sínum á ný.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VÍS.

Þar kemur fram að VÍS er málið skylt því fyrirtækið hefur alla tíð lagt mikla áherslu á forvarnastarf, sem miðar að því að koma í veg fyrir hvers konar slys og tjón, en mænuskaðar eru einmitt meðal alvarlegustu afleiðinga slysa.

„Á liðnum árum hafa mænuskaðaðir einstaklingar lagt VÍS ómælt lið með þátttöku í forvarnarstarfi félagsins.  Það er því kærkomið fyrir félagið að geta nú með þátttöku í átaki Mænuskaðastofnunar Íslands endurgoldið þá aðstoð,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur fram að á þjónustuskrifstofum VÍS er nú hægt að kaupa, eða að leggja inn pöntun, á skemmtilegum gestaþrautum til styrktar verkefninu.

Gestaþrautirnar eru vönduð leikföng úr tré sem koma í merktum pokum.  Þrjár mismunandi þrautir eru í boði og kosta þær kr. 1.500 stk.

„Litlar breytingar hafa orðið á meðhöndlun mænuskaða síðastliðna hálfa öld, ólíkt öðrum sviðum læknavísinda,“ segir í tilkynningunni frá VÍS.

„Hlutverk Mænuskaðastofnunar Íslands er að safna fé innanlands og utan, sem notað verður til að vekja athygli á mænuskaða og hvetja til fjölbreyttari meðferðarúrræða – sem gætu leitt til þess að lækning finnist við mænuskaða.  Með þátttöku í þessu verkefni vill VÍS leggja sitt af mörkum til þess að von þeirra sem hlotið hafa mænuskaða verði að veruleika.“