Vátryggingafélag Íslands (VÍS) var í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag sýknað af ríflega 31 milljóna króna kröfu Pennans. Félagið hafði höfðað málið til viðbótargreiðslu úr tryggingu hjá VÍS vegna Skeifubrunans árið 2014. Að mati dómsins var krafa Pennans fyrnd þegar málið var höfðað.

Sem frægt er varð gífurlegt tjón í Skeifunni í júlí 2014 þegar kviknaði í húsi númer ellefu. Meðal leigjenda í því húsi var Penninn en þar var rekin ritfanga- og námsgagnaverslunin Griffill. Penninn var með rekstrarstöðvunartryggingu í gildi hjá VÍS og laut deilan að henni. Bótatímabil samkvæmt henni var tólf mánuðir og vátryggingafjárhæðin tæpar 137 milljónir króna. Eftir brunann ákvað Penninn að opna skólabókamarkað í Laugardalshöll til að takmarka tjón sitt.

Að mati endurskoðanda Pennans var töpuð framlegð á vátryggingatímabilinu tæplega 129 milljónir króna en endurskoðandi VÍS að hún hefði verið 131 milljón króna. Voru aðilar ekki sammála um það hvort draga mætti frá kostnað sem sparaðist við að vera ekki með rekstur á tímabilinu.

Síðasta dag ársins 2014 krafðist Penninn þess að VÍS greiddi tæpar 105 milljónir króna í bætur vegna brunans. Í svarbréfi VÍS kom fram að félagið teldi að draga ætti frá upphæðinni rekstrarkostnað sem sparaðist vegna brunans en Penninn taldi hann ekki skipta máli þar sem um tapaða framlegð hefði verið að ræða.

Í febrúar 2016 stefndi Penninn tryggingafélaginu vegna brunans. Á endanum var gerð dómsátt um uppgjör vegna brunans um alla þætti málsins aðra en rekstarstöðvunartrygginguna. Endanleg krafa hennar nam áætlaðri tapaðri framlegð Griffils. Í héraði var VÍS sýknað og þeirri niðurstöðu vísað til Hæstaréttar. Rétturinn vísaði málinu hins vegar frá héraðsdómi, með dómi í júní 2018, sökum vanreifunar.

Tæplega ári síðar, í júní 2019, var kröfunni stefnt fyrir dóm á nýjan leik. Þá hafði hún að vísu hljóðað upp á tæpar 62 milljónir króna en frá henni nú hafði verið dreginn húsnæðiskostnaður sem fallið hafði niður í kjölfar brunans, alls 30,6 milljónir króna.

Fyrir dómi krafðist VÍS sýknu þar sem að fyrsta kröfubréf málsins hefði verið sent undir lok árs 2014. Fjögurra ára fyrningarfrestur hefði byrjað að líða fyrsta dag ársins 2015 og möguleg krafa því fyrnd. Penninn byggði á móti á því að félagið hefði ekki haft allar nauðsynlegar upplýsingar um tjón sitt fyrr en síðla árs 2015 sem ætti að leiða til þess að krafan teldist ekki fyrnd.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að fyrri málshöfðun hefði slitið fyrningu en að sú síðari gerði það ekki þar sem málinu var ekki stefnt inn að nýju innan sex mánaða frá því að Hæstiréttur vísaði því frá. Fyrri stefna gæti því ekki haft nein áhrif í málinu.

„Af atvikum og gögnum málsins, einkum því með hvaða hætti bótakrafa [Pennans] var sett fram 31. desember 2014, verður ekki annað ráðið en að [Penninn] hafi þá haft allar nauðsynlegar upplýsingar um þau atvik sem eru grundvöllur kröfu hans um bætur. Þá hafði hann einnig upplýsingar um þá hugsanlegu frádráttarliði frá kröfu hans sem aðilar deila um og hefur sá ágreiningur um tölulega niðurstöðu bótafjárhæðar engin áhrif á upphaf fyrningarfrestsins,“ segir í forsendum héraðsdóms.

VÍS var því sýknað af kröfunni. Samkvæmt dómsorði ber Pennanum að greiða félaginu 400 þúsund krónur í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti.