Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS) tapaði 278 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi samkvæmt nýjum árshlutareikningi félagsins. Á sama tímabili í fyrra hagnaðist VÍS um 354 milljónir. Hagnaður VÍS á fyrstu níu mánuðum ársins nam þó 829 milljónum króna samanborið við 592 milljónir á sama tímabili árið 2016.

Samsett hlutfall VÍS á þriðja ársfjórðungi var 94,6% borið saman við 97,2% á sama tímabili árið 2016. Á fyrstu níu mánuðum ársins var samsett hlutfall 95,1% en var 102,1% á sama tíma í fyrra.

Bókfærð iðgjöld VÍS jukust um 14,9% milli ára á fyrstu níu mánuðum ársins. Tap var á fjárfestingastarfsemi upp á 499 milljónir króna en á sama tímabili í fyrra tapaði félagið 420 milljónum af fjárfestingum.

Helgi Bjarnason, forstjóri VÍS, segir afkomu félagsins af vátryggingastarfsemi hafa þróast með jákvæðum hætti það sem af er ári, en að afkoma af fjárfestingastarfsemi sé óviðunandi.

„Þriðji ársfjórðungur er kaflaskiptur hjá okkur,“ segir Helgi í tilkynningu. „Við erum annars vegar að sjá áframhald á jákvæðri þróun í afkomu af vátryggingarekstri og samsett hlutfall upp á 95,1% það sem af er ári. Afkoman af fjárfestingastarfseminni er hins vegar óviðunandi, sem skýrist aðallega af óhagstæðri þróun á hlutabréfamarkaði. Nýlega réðumst við í umfangsmiklar skipulagsbreytingar með það að leiðarljósi að einfalda okkar rekstur og gera okkur enn betur í stakk búin til að veita viðskiptavinum bestu þjónustu sem völ er á. Við sjáum mikil tækifæri í stafrænum lausnum og endurspegla breytingar í skipuriti m.a. þær áherslur.“

Gert er ráð fyrir áframhaldandi iðgjaldavexti á árinu 2017. Áætlanir VÍS um samsett hlutfall eru óbreyttar á bilinu 95-98%.