Kostnaður VÍS af brunanum í Skeifunni verður að hámarki 250 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu frá félaginu. Tilkynningin heild sinni hljóðar svo:

„Miklar skemmdir urðu á húsum og lausafé í bruna sem varð í Skeifunni í Reykjavík í gær. Of snemmt er að segja til um hve mikið tjón varð en hluti þess var tryggður hjá VÍS. Kostnaður VÍS af atburðinum verður að hámarki 250 milljónir króna vegna samninga félagsins við erlenda endurtryggjendur. Til samanburðar nemur sú hámarksfjárhæð um 2% af tjónakostnaði VÍS á árinu 2013.

Starfsfólk VÍS leggur nú kapp á að veita viðskiptavinum sem lentu í tjóninu skjóta og góða þjónustu svo þeir geti hafið starfsemi sína aftur sem fyrst.“