Tap Vátryggingafélags Íslands á þriðja ársfjórðungi nam 393,7 milljónum króna sem er viðsnúningur um 143% frá sama tíma fyrir ári þegar hagnaðurinn nam 910 milljónum króna.

Iðgjaldatekjurnar jukust um 1,9%, úr 5.996 milljónum í 6.068 milljónir króna meðal heildargjöldin jukust um 17,7%, úr 5.137 milljónum í 6.046 milljónir króna. Neikvæður viðsnúningur varð í fjárfestingartekjum félagsins sem drógust saman um 155,5%, eða úr 426,9 milljóna króna jákvæðri afkomu í 237,1 milljóna neikvæða afkomu. Félagið tapaði 155 milljónum króna á Gamma: Novus sjóðnum sem hafði áhrif á afkomu allra tryggingafélaganna.

Á sama tíma jókst tjón félagsins um 27%, úr 3,8 milljörðum króna í 4,8 milljarða, eða rétt rúmlega 1 milljarð króna. Rekstrarkostnaður fyrirtækisins jókst um 12,4%, úr 1.265 milljónum króna í 1.422 milljónir króna.

Nærri fjórðungi meiri hagnaður fyrstu 9 mánuði ársins

Þegar horft er til fyrstu 9 mánaða ársins sést að hagnaður tímabilsins eftir skatta nam 1.798 milljónum króna samanborið við 1.462 milljóna króna hagnað á sama tímabili árið 2018. Það nemur 23% aukningu milli ára.

Ávöxtun fjáreigna var 7,5% samanborið við 5,4% á sama tímabili í fyrra. Arðsemi eigin fjár var 12,4% samanborið við 9,2% á sama tímabili í fyrra. Félagið væntir þess að ávöxtun eigin fjár verði um 15% í heildina á árinu.

Samsett hlutfall var 99,3% samanborið við 96,9% á sama tímabili árið 2018. Uppfærð afkomuspá félagsins gerir ráð fyrir að samsett hlutfall fyrir árið 2019 verði 99,0% og að hagnaður fyrir skatta verði um 2,5 milljarðar króna.

Eigið fé félagsins dróst saman um 3% milli ára, úr 14,9 milljörðum í 14,5 milljarða, á sama tíma og skuldirnar jukust um 13%. Því jukust heildareignirnar 8%, úr 47,2 milljörðum í 50,9 milljarða, meðan eiginfjárhlutfallið drósts saman úr 31,6% í 28,4%.

Stytta vinnuvikuna um 45 mínútur

Helgi Bjarnason forstjóri VÍS segir uppgjörið sýna vel sveifluna í rekstri tryggingafélaga. „Á meðan níu mánaða uppgjörið okkar er framúrskarandi og eitt það besta frá skráningu með góðan hagnað og 12,4% arðsemi eigin fjár þá litast uppgjör þriðja ársfjórðungs m.a. af verri afkomu af skráðum hlutabréfum í eigu félagsins,“ segir Helgi sem vísar í afkomuviðvörun fyrirtækisins frá í október og hærra tjónshlutfalls vegna stærri tjóna og lækkun vaxta.

„Það gleður mig að segja frá því að við höfum ákveðið að ríða á vaðið með styttingu vinnuvikunnar í samræmi við síðustu kjarasamninga. Samkvæmt þeim á styttingin að taka gildi 1. janúar 2020 en við höfum ákveðið að hún taki gildi strax um næstu mánaðarmót, 1. nóvember. Við munum stytta vinnuvikuna um 45 mínútur á föstudögum og teljum, eftir samráð við starfsfólk, að mesti ávinningurinn náist með þeirri útfærslu. Við erum sannfærð um að þetta stuðli að betra jafnvægi milli vinnu og einkalífs og um leið geri vinnustaðinn okkar enn fjölskylduvænni.“