Vátryggingafélag Íslands hf. og Ríkiskaup gerðu í dag samning um að VÍS annist lögbundnar tryggingar ökutækja í eigu ríkisins frá og með 1. mars 2006. Samningurinn er til tveggja ára og síðan er mögulegt að framlengja hann í tvígang til eins árs í senn. Hann tekur til um 1.250 ríkisbíla og er stærsti einstaki tryggingasamningur fyrir ökutæki á íslenskum tryggingamarkaði segir í tilkynningu VÍS.

Bílarnir eru í rekstri hjá á annað hundrað stofnunum, fyrirtækjum og embættum ríkisins. Flestir þeirra eru skráðir á Íslandspóst, Vegagerðina, embætti ríkislögreglustjóra og sýslumanna, Flugmálastjórn og RARIK.

Bílatryggingar íslenska ríkisins voru boðnar út á Evrópska efnahagssvæðinu fyrr í vetur og tilboð voru opnuð hjá Ríkiskaupum 19. janúar 2006. Vátryggingafélag Íslands átti lægsta tilboð og fyrirliggjandi samningur er á grundvelli þess.