Vátryggingafélag Íslands (VÍS) hefur valið SAP fjárhagslausn frá Applicon til þess að annast fjárhagsbókhald, innheimtu, utanumhald um viðskiptamenn, kröfur og einnig fjárhagsáætlanagerð.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Nýherja.

Þar kemur fram að SAP er ætlað að leysa af hólmi eldra kerfi hjá VÍS og koma til móts við nýjar og breyttar áherslur þar sem mun meiri áhersla er lögð á skilvirkni við upplýsingagjöf og alla skýrslugerð.

SAP fjárhagskerfið er alþjóðleg lausn sem þjónar jafnt tryggingafélögum innanlands sem og erlendis, samkvæmt tilkynningunni.

„Það er ánægjulegt að VÍS hafi eftir ítarlega skoðun valið SAP sem sýnir að lausnin hentar vel krefjandi rekstri tryggingafélaga, þar sem mikil áhersla er lögð á skilvirkni í fjárhagsuppgjöri og afkomugreiningu, segir Kristján Jóhannsson framkvæmdastjóri Applicon á Íslandi í tilkynningunni.

Kristján segir að SAP fjárhagshugbúnaðurinn sé sérlega öflugt tæki þegar kemur að fjárhagslausnum, greiningu og áætlanagerð og samstæðuskilum.

„Með SAP gefst fyrirtækjum einnig tækifæri á að nálgast mikilvægar upplýsingar úr rekstri eins og uppgjör eftir mismunandi víddum og aðrar mikilvægar lykiltölur,“ segir Kristján.