Forsvarsmenn Íslandshótela hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þeir hafna með öllu þeim ávirðingum sem fulltrúar Eflingar hafa sett fram og vísa til föðurhúsanna ásökunum um nokkurs konar þrýsting eða ólögmætar hótanir í garð starfsfólks.

Tilefni yfirlýsingarinnar er opið bréf sem Efling sendi Íslandshótelum í dag þar sem hótelkeðjan er sökuð um ólöglegar tilraunir til að setja þrýsting á starfsfólk vegna yfirstandandi verkfallskosninga „með hótunum um tekjumissi og/eða loforðum um peningagreiðslur“.

Efling stéttarfélag boðaði á sunnudaginn til verkfalls á hótelum Íslandshótela og Fosshótela þann 7. febrúar að undangenginni atkvæðagreiðslu sem stendur nú yfir.

Efling birtir bréf Íslandshótela til starfsmanna sinna sem eiga aðilda að Eflingu með upplýsingum um kjaraviðræðurnar og áhrif verkfallsaðgerða á tekjur. Stéttarfélagið lýsir bréfinu sem hótunum um tekjumissi til að hafa áhrif á skoðanir og kosningahegðun starfsfólks.

„Fulltrúar Eflingar hafa haft óheftan og greiðan aðgang að öllum starfsmönnum Íslandshótela sem eru í Eflingu. Þar hafa því miður komið fram villandi upplýsingar, sem forsvarsmenn fyrirtækisins hafa séð sig knúna til að leiðrétta,“ segir í yfirlýsingu forsvarsmanna Íslandshótela.

Stjórnendur Íslandshótela segja engan þrýsting hafa verið viðhafðan af hálfu hótelkeðjunnar og að engin afskipti né hótanir vegna verkfallskosninga hefðu átt sér stað. „Ávirðingum Eflingar er því hafnað með öllu.“

Efling birti mynd á vefsíðu sinni af bréfi Íslandshótela til starfsmanna sinna sem eiga aðild að Eflingu.