Greiðslumiðlunarfyrirtækið Visa hefur verðlagt hlutabréf sín á 44 dali í frumútboði sem nú stendur yfir. Þetta er hærra verð en gert hafði verið ráð fyrir, sem var 37 til 42 dalir, að því er WSJ hefur eftir JP Morgan, einum að helstu umsjónaraðilum frumútboðsins.

Stærsta frumútboðið í Bandaríkjunum

Áformað er að selja hlutabréf fyrir 19,65 milljarði dala og þar með yrði frumútboð Visa stærsta frumútboð sögunnar í Bandaríkjunum. Stærsta frumútboðið til þessa hefur verið 10,62 milljarðar dala sem AT&T seldi á tímum netbólunnar árið 2000. Á heimsvísu verður þetta þó ekki met, því að í frumútboði Industrial & Commercial Bank of China árið 2006 voru seld hlutabréf fyrir 21,9 milljarða dala.

Visa er í eigu um 13.000 bandarískra banka og um helmingur hlutafjár þess verður seldur í frumútboðinu. Gert er ráð fyrir að viðskipti hefjist í dag með bréf félagsins undir merkinu V í New York Stock Exchange.

MasterCard, keppinautur Visa, var sett á markað fyrir tæpum tveimur árum og hafa bréfin hækkað úr 39 dölum í rúma 210 dali á þeim tíma.