Ný gjaldskrá Visa Ísland tekur gildi 1. september nk. Þá hækka þjónustugjöld á söluaðila sem hafa verið óbreytt í þrjú ár. Lágmarksgjald á hverja debetkortafærslu hækkar úr 5 kr. í 7 kr. og hámarksgjald hækkar úr 110 kr. í 180 kr. fyrir flesta söluaðila. Þá hækkar útskriftargjald úr 150 kr. í 220 kr. Finna má ýmsar nýjungar á gjaldskránni. Þannig stendur söluaðilum til boða vikulegt uppgjör gegn 0,87% aukaþóknun og leiga á örgjörvalesara fyrir kassakerfi á 700 kr. á mánuði.

Söluaðilar geta valið um færslugjöld samkvæmt þremur mismunandi flokkum. Hæstu gjöldin greiða þeir sem aðeins taka við debetkortum, en flestir söluaðilar taka bæði við debet- og kreditkortum og greiða lægri þóknanir. Söluaðilar greiða lægri þóknanir ef þeir nota viðskiptakort til að greiða með ýmis rekstrargjöld fyrirtækisins.

Visa segir í tilkynningu að nýja gjaldskráin hafi verið kynnt Samkeppnisstofnun. "Engu að síður ættu söluaðilar í verslun og þjónustu að fylgjast með þeim hækkunum sem verða og samsetningu þjónustugjaldanna, því svo virðist sem ýmsir möguleikar séu á lækkun gjaldanna eftir því hvaða þjónustu um er að ræða," segir í fréttapósti Samtaka verslunar og þjónustu.