Borgun hefur óskað eftir heimild Fjármálaeftirlits Seðlabankans til að lækka hlutafé með 3,5 milljarða króna greiðslu til fráfarandi hluthafa. Fréttablaðið greindi frá þessu í morgun.

Tillagan um hlutafjárlækkunina var samþykkt á hluthafafundi Borgunar í lok síðasta mánaðar en hún felur í sér afhendingu allra eignarhluta í dótturfélaginu Borgun-VS ehf. en það heldur utan um forgangshlutabréf í Visa Inc. sem Borgun eignaðist þegar fyrirtækið seldi hlut sinn í Visa Europe árið 2016. Í ársreikningi Borgunar voru hlutabréfin í Visa Inc. bókfærð á rúmlega 3,1 milljarð í árslok 2019.

Sjá einnig: Íslandsbanki selur eignarhluti í Borgun

Fráfarandi stærstu hluthafar Borgunar eru Íslandsbanki með 63,5% hlut og Eignarhaldsfélagið Borgun, sem er í eigu meðal annars Stálskipa og Einars Sveinssonar fjárfestis, með 32,4%.

Samhliða hlutafjárlækkuninni á að koma inn nýtt hlutafé frá Salt Pay, sem gekk formlega frá kaupum á 96% hlut í Borgun í gær, með inngreiðslu reiðufjár að fjárhæð 8 milljóna evra. Fimm milljónir evra verða greiddar samtímis framkvæmd hlutafjárlækkunarinnar og þrjár milljónir koma til greiðslu innan næstu tólf mánaða.

„Með því að lækka hlutafé með útgreiðslu eignarhluta í Visa Inc. og hækka hlutafé með inngreiðslu reiðufjár er gert ráð fyrir að eiginfjárhlutfall hækki þar sem eignarhlutur í Visa Inc. er ekki tekin með í eiginfjárútreikninga,“ að því er segir í skýrslu stjórnar um hlutafjárlækkunina.

Í skýrslunni segir að rekstrartap á fyrstu fimm mánuðum ársins hafi numið 642 milljónum sem var töluvert meira tap en gert var ráð fyrir í áætlunum. Helstu ástæðurnar eru efnahagsáhrifin af kórónaveirufaraldrinum, lægra vaxtastig og minni notkun á virðisaukandi þjónustu.