Greiðslumiðlunarfyrirtækið Visa Inc. tilkynnti í gær, föstudag, að það hygðist fara út í frumútboð hlutafjár og skráningu fyrir allt að 10 milljarða dala, jafnvirði um 600 milljarða króna. Í frétt WSJ segir að á meðal umsjónaraðila séu nokkrir af stærstu bönkum heims, en Visa hefur ekki sagt í hvaða kauphöll bréfin verða skráð.

Í fréttinni kemur fram að Visa hafi yfirburðastöðu meðal greiðslumiðlunarfyrirtækja og hafi sótt hart fram með nýjar leiðir í greiðslumiðlun, sérstaklega í ört stækkandi debetkortaviðskiptum. Líkt og MasterCard hafi Visa líka verið framarlega á sviði snertilausra korta, sem ekki krefjist þess að vera rennt í gegnum kortalesara og þurfi ekki undirskrift.

Í skráningarlýsingu Visa kemur fram að pro forma rekstrartekjur hafi numið 3,73 milljörðum dala á fyrstu níu mánuðum fjárhagsársins, sem lauk 30. júní. Velta í greiðslumiðlun Visa jókst um 12% á sama tímabili.