Eins og greint er frá í Viðskiptablaðinu í dag hafa nokkrir íslenskir framleiðendur sagt að þeir hafi fengið þau skilaboð frá Högum að ef þeir hyggist selja vörur sínar í Costco þá verði þær teknar úr hillum verslana Bónuss og Hagkaupa.

„Ég vísa þessu alfarið á bug og þetta kemur mér mjög á óvart", segir Guðmundur Marteinsson, forstjóri Bónuss. „Bónus hættir aldrei með  vörur sem seljast vel og eftirspurn er eftir, hvort sem þær eru keyptar af innlendum framleiðendum eða heildsölum. Okkur kemur það ekkert við þó framleiðendur eða heildsalar séu að selja til samkeppnisaðila okkar.

Þeir innlendu heildsalar og framleiðendur, sem ég hef verið í samskiptum við, eru í flestum tilfellum svekktir yfir því hvað í raun er lítið af vörum frá þeim inni í Costco. Þeir eru yfir höfuð að fá lítil viðskipti við þetta fyrirtæki eins og við höfum til dæmis séð á gosinu og vatninu sem Costco selur. Það er allt innflutt. Svo virðist sem Costco ætli að versla lítið við íslensk fyrirtæki."

Blaðamenn Viðskiptablaðsins reyndu ítrekað að ná í bæði Finn Árnason, forstjóra Haga og Guðmund Marteinsson við vinnslu fréttarinnar í gær.

Viðskiptablaðið stendur við fréttina, sem birtist í blaðinu í dag, en brot úr henni má lesa hér og viðbrögð Finns í morgun má lesa hér .