Í skýrslu Samkeppniseftirlitsins um eldsneytismarkaðinn segir eftirlitið að eignarhald Gildi-lífeyrissjóðs á Skeljungi og N1 geti haft skaðleg áhrif á eldsneytismarkaðinn. Gildi-lífeyrissjóður hefur nú vísað ályktun Samkeppniseftirlitsins alfarið á bug.

Samkeppniseftirlitið segir í skýrslu sinni að vegna eignarhalds Gildis (og LSR) á Skeljungi og N1 sé dregið úr hvata félaganna til að keppa á eldsneytismarkaði og auðveldi samhæfða hegðun á markaðnum.

Gildi-lífeyrissjóður segir að hann komi aldrei að daglegum rekstri þeirra félaga sem sjóðurinn eigi hlut í, s.s. ákvörðunum um verðlagningu. Sjóðurinn segir einnig að hann telji það mjög mikilvægt að hvert félag starfi sjálfstætt að markmiðum sínum í samkeppni við önnur félög í sömu grein, óháð því hvort sjóðurinn eigi hlut í félögunum.

Sjóðurinn segir að umfjöllun og ályktun Samkeppniseftirlitsins sé til þess fallin að vekja tortryggni í garð eins stærsta lífeyrissjóðs landsins. Gildi-­‐lífeyrissjóður segist taka hlutverk sitt sem fjárfesti og hluthafa alvarlega. Sjóðurinn kappkosti að gæta sérstaklega að samkeppnissjónarmiðum eins og kemur fram í hluthafastefnu og fjárfestingarstefnu sjóðsins og Samkeppniseftirlitinu á að vera kunnugt um.